Kosningar, hvað svo?

Hef hugsað mikið um það undanfarið hvað kosningar á þessu ári hefðu í för með sér. Krafan um stjórnarslit og kosningar til Alþingis er hávær og allt í lagi að gera sér í hugalund hverju það myndi breyta eða hvort.

Núverandi stjórnarflokkar hafa um tvo þriðju kjörinna þingmanna á bak við sig. Það er afar ólíklegt að þeir haldi ekki þeim meirihluta að loknum kosningum. Til þess þarf mikið að breytast. Skoðum það nánar.

Sjálfstæðismenn halda til landsfundar á næstu dögum. Í skoðanakönnunum hafa þeir verið að tapa fylgi, og eru ekki þeir vinsælustu núna. Undanfarið hefur verið starfandi á vegum flokksins nefnd sem meðal annars á að meta kosti og galla inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Það er flokknum alger nauðsyn að komast heill og óskiptur frá landsfundinum. Ég tel  útilokað annað en að hann komi með einhverja þá yfirlýsingu eða ályktun frá fundinum sem verulega mikil samstæða næst um. Að koma klofin frá þessum fundi er ekki það sem flokkurinn vill. Sameiningin er þeim nauðsyn. Geir gerir flokknum erfiðara fyrir, en væntanlega nær hann góðri kosningu. Búast má bið að Sjálfstæðisflokkurinn tapi fylgi en en mun minna en kannanir hafa sýnt.

Samfylkingin er í svolítið annarri stöðu. Hún var ekki í stjórn þegar þær ákvarðanir voru teknar sem nú eru að reynast okkur erfiðar. Hins vegar ber Samfylkingin fulla ábyrgð á stjórnarsamstarfinu ásamt Sjálfstæðisflokknum og líklegt að það verði flokknum til trafala. Ingibjörg er snjall stjórnandi og á gott með að laða til sín fólk. Eindregin stuðningur við Evrópusambandsaðild færir flokknum fleiri atkvæði frekar en færri.

Framsóknarflokkurinn teflir fram nýrri forustu, ungt fólk án fortíðardraugs Framsóknar. Ekki er ólíklegt að hann bæti við sig fylgi, ekki síst í Reykjavík. Það sé fólk sem vill breytingar, og er tilbúið að kjósa nýtt fólk á þing.

Vinstri Grænir hafa innanborðs tvo sem ekki hafa verið taldir neinir framfaramenn. Talað á móti öllum tillögum og málum sem flutt hafa verið á þinginu undanfarin ár. Þeir félagar, Steingrímur og Ögmundur eru menn fortíðarinnar og dragbítar á flokkinn. Aftur á móti nýtur flokkurinn þess að hafa aldrei verið í stjórn, og gæti fengið fylgi út á það. Fylgi frá óánægðum kjósendum. Halda trúlega sínu en ekki mikið meira en það.

Frjálslindir hafa ekki staðið saman sem ein heild. Þingmenn flokksins njóta aftur á móti persónufylgis í sínum kjördæmum. Mega teljast heppnir ef þeir halda sínu en tapa líklega fylgi.

Önnur framboð geta auðvitað komið fram, en það er dýrt að fara af stað með framboð og ekki miklir peningar í umferð. En það kemur í ljós hvað verður.

Áhrifum landsbyggðarinnar megum við ekki gleyma. Hver landsbyggðarþingmaður hefur færri atkvæði á bak við sig en þingmenn Reykjavíkur. Til þess að gera fá atkvæði greidd landsbyggðarþingmanni geta geta skekkt heildarmyndina.

Það er nú svo að frambjóðendur út á landi njóta persónufylgis meira en á höfuðborgarsvæðinu. Fólk greiðir gjarnan „sínum“ frambjóðanda atkvæði sitt, og er íhaldssamara  í skoðunum. Þó svo að áhrifin séu minni eftir að kjördæmin stækkuðu. Svo má ekki gleyma því að aðstæður eru allt aðrar en á Reykjavíkursvæðinu.

Húsnæðisverð náði aldrei þeim hæðum sem það gerði á höfuðborgarsvæðinu, og munaði þar miklu. Bankarnir voru tregari að lána, og fólk út á landi gat ekki skuldsett sig eins og víða annarstaðar. Uppbyggingin hægari og öfgafull uppsveifla ekki til staðar. Fyrir nokkru var talað við konu austur á Vopnafirði. Hún kannaðist ekki mikið við þessa kreppu, en sagði eitthvað á þá leið, að það sem ekki færi upp kæmi ekki niður. Þannig var þetta víða.

Ég hef sterka tilfinningu fyrir því að reiði og gremja fólks gagnvart stjórnvöldum og ástandinu almennt, sé minni í hinum dreifðu byggðum. Þaðan sem atkvæðin í kosningum skipta svo miklu máli.

Ekki veit ég hvort kosið verður. En ég tel rétt að kjósa, það er eðlileg réttlætisleið í því ástandi sem við búum við núna. En ekki reikna ég með neinni byltingu, og á alveg eins von á að kosningar breyti ekki miklu. Þær breyta þó því að þá fær fólkið það sem það vill. Vonandi linnir þá mótmælum, burt séð frá því hverjir mynda meirihluta. Annars erum við í sömu sporum. það held ég að fæstir vilji.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Benedikt Bjarnason

Höfundur

Benedikt Bjarnason
Benedikt Bjarnason
Ég er áhugamaður um þjóðfélagsmál og mannlífið yfirleitt. Fyrrverandi sveitavargur á miðjum aldri.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband