Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
3.1.2009 | 16:36
Fram úr hófi kjánalegt.
Raddir fólksins. Hvaða raddir eru það? Maður skyldi ætla að það væri stór hópur fólks sem hefði einhvern samhljóm. Fólk sem væri ósátt við tiltekið málefni eða þjóðfélagsástand og vildi breytingar og kæmi fram með lausnir. Á þessa mótmælafundi hafa tiltölulega fáir mætt sé tekið meðaltal. Þeir sem talað hafa á þessum fundum er ekki þversniðið af fólkinu á landinu. Flestir sem hafa talað eru listafólk eða fólk innan þess geira.
Þetta fólk hefur ekki komið fram með neinar lausnir. Ekki myndað neinn hóp sem kemur fram með neinar raunhæfar lausnir eða tillögur. Einungis mótmælt og heimtað breytingar. Mótmæli eiga alveg rétt á sér en mér finnst að það mætti koma meira frá þessu fólki.
Mikið óskaplega er nú málefnafátæktin orðin mikil þegar grípa þarf til þess ráðs að láta 8 ára barn tala á almennum mótmælafundi. Lifandis ósköp er nú lágkúran orðin mikil. Að beita blessuðu barninu fyrir sig sem enga grein getur gert sér fyrir ástandinu, og raunar hægt að láta barnið tala fyrir hvaða málstað sem er.
Þessi blessuð stúlka fær ekki kosningarrétt fyrr en eftir áratug. Það segir allt sem segja þarf. Ekki get ég sagt að álit mitt á Röddum fólksins vaxi við þetta.
Mótmælaróður hertur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.12.2008 | 17:48
Fátt er svo með öllu illt.
Kjararáð hefur orðið við tilmælum ríkisstjórnarinnar um launalækkun, sem er hið besta mál. Við skulum muna að ríkisstjórninni bar engin skylda að fara fram á þessa lækkun. Þessi launalækkun skapar ríkissjóði afskaplega litlar tekjur en er fyrst og fremst fordæmisgefandi. Ég ætla ekki að blanda mér neitt í þá umræðu hvaða persónur taka við þessum launum frekar en ef um aðra starfsstétt væri að ræða. Enda kann það að vera að á næsta ári verði kostningar og þá verði aðrir aðnjótandi þessara launa að hluta til.
Er þessi aðgerð að öllu leyti til góðs? Eftir stendur að þessi laun eru ekki neitt sérstaklega há. Næst þegar kosið verður til Alþingis verður alltaf einhver endurnýjun alþingismanna. Það er nauðsynlegt að þangað sæki fólk með nokkuð góða menntun og víðtæka reynslu. Þegar efnahagshjólið fer að snúast til baka og fjárhagur fólks og fyrirtækja að braggast má búast við eftirspurn eftir vel menntuðu fólki. Ég get ekki séð að laun alþingismann séu það há að þau lokki þetta fólk til sín. Því þau hækka ekki neitt á næsta ári.
Vissulega er hér um viðkvæmt mál að ræða og erfitt að finna á því sanngjarnan flöt. Á þessu máli eru fleiri hliðar, og ég tel mig hafa hreyft við einni þeirra.
Laun ráðamanna lækkuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.12.2008 | 15:12
Fyrstu gleðitíðindin
Komið þið sæl og blessuð.
Gleðilega jólarest. Vonandi hefur ykkur liðið vel um jólin og þau verið ykkur gjöful. Hvað þýðir það að jólin séu gjöful? Er það að fá sem flesta pakka og stærstu gjafirnar? Er það að borða eins og hver getur í sig látið? Nei ég held ekki. Að jólin séu gjöful er að finna að einhver man eftir manni og þyki vænt um mann, og að maður hafi eitthvað að gefa af sér. Einhver falleg orð, eitthvað hlýlegt.
Nú er dag farið að lengja og sólarstundunum að fjölga. Veðrið er ákaflega fallegt, sólin að reyna að gægjast aðeins upp fyrir sjóndeildarhringinn. Mér sýndist hún hálffeimin, eins og hún vissi ekki alveg hversu hátt hún mætti fara upp á himinhvolfið.
Eftir örfáa daga göngum við inn í nýtt ár. Þá árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka. Það er einmitt raunin. Og við áramót er árið gjarnan gert upp. Fyrirtæki þurfa að skila ársreikningum sem ná frá síðustu áramótum. Uppgjör er að gera upp það liðna, eitthvað sem við fáum ekki breytt. Við uppgjör kemur ýmislegt í ljós, margt sem vel hefur til tekist og annað miður. Margir hafa tapað fjármunum eða veraldlegum gæðum. En sumir hafa tapað miklu meira sem aldrei kemur til baka. Margir hafa misst ástvin og enn aðrir lent í slysum eða veikindum. Ástvinurinn kemur aldrei til baka en batinn eftir veikindi eða slys gengur misvel. Vonandi sem allra best þó eru einhverjir sem ná sér ekki að fullu. Fjármunir eru endurnýjanlegir og nauðsynlegir og auðvitað er það óskaplega sárt að sjá á eftir eigum sínum hverfa og geta ekkert gert til að koma í veg fyrir það. En það er svo margt annað sem gefur lífinu gildi.
Við núverandi efnahagsástand kemur fólk til landsins í verslunarleiðangur og skilur eftir gjaldeyrir í landinu. Ekki veitir af. Þó svo að ástæðan fyrir því sé það efnahagsumhverfi sem við íslendingar búum við nú um stund.
Ég ætla ekki að bölsótast út í fortíðina og draga bölmóðinn með mér inn í næsta ár. Það hefur afskaplega lítinn tilgang. Sé einhver sekur um eitthvað brotlegt verður sá hinn sami væntanleg dæmdur af dómstólum landsins. Það er ekki mitt að gera það, ég hef ekki efni á því.
Horfum björtum augum fram á veginn. Óska bloggurum og landsmönnum öllum gleðilegs nýárs og megi þeir vel njóta.
Ísland á hálfvirði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2008 | 11:15
Áfram álver.
Umræða gagnvart stóriðju er oft á tíðum ósamgjörn. Oftast held ég að um sé að kenna þekkingarleysi og upplýsingarskorti. Ég bý ekki svo langt frá Grundartangasvæðinu, og get ekki hugsað það til enda ef áverið hefði ekki verið byggt þarna. Sumir álíta að álver sé mengandi drulluverksmiðja sem sé að greiða fáeinum körlum lágmarkslaun. Þessu fer víðsfjarri.
Stór hluti starfsmanna í álverinu vinnur vaktarvinnu, unnið er á 12 tíma vöktum. En svo eru aðrir sem vinna dagvinnu. Vaktarvinnan gengur út á að búið er til ákveðið vaktarplan sem samið er um og unnið er eftir. Vaktarplanið er kjarasamningsatriði og því ósnertanlegt og ekki hægt að breyta því nema í samningum. Kunningi minn sem vinnur á vöktum í álverinu veit nú í dag hvernig fríum er háttað langt fram í tímann. Hann veit hvenær hann fer í sumarfrí næsta sumar og væntanlega sumarið 2010, einnig hvort hann þarf að vinna um jól og áramót eftir ár og hvort um sé að ræða nætur eða dagvaktir.
Grundartanga verksmiðjurnar sjá sínu starfsfólki fyrir ferðum í úr vinnu því að kostnaðarlausu, nema þeim sem ekki geta nýtt sér það. Rútuferðir eru á þéttbýlisstaðina í kring sem keyra fólki nánast heim í hlað. Það kann að vera að verksmiðjurnar taki þátt í ferðakostnaði þeirra sem ekki geta nýtt sér rútuna, ég veit það ekki.
Álverið sérstaklega er ekki síður vinnustaður fyrir konur og vinnuöryggi betra en á mörgum öðrum stöðum. Þarna er ekki um að ræða neinar sveiflur á milli mánaða. Í gegnum þessar verksmiðjur fer ákveðið framleiðslumagn á hverju ári og hefur efnahagsástandið í heiminum engin áhrif á það að ég best veit.
Eðlilega dregur úr eftirspurn eftir áli eins og er, og álverð lækkað. Á síðasta ári náði það hámarki sínu, og væntanlega nær það sér á strik með batnandi efnahag. Þörfin fyrir ál er enn til staðar og fer trúlega vaxandi. Það er ekkert sem enn hefur komið í staðinn fyrir álið að neinu marki. Ál er einnig blandað öðrum efnum þegar unnið er úr því til að fá fram meiri styrk, eða aðra eiginleika.
Hátt í fimm þúsund störf í orkufrekum iðnaði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.12.2008 | 17:44
Tímabær ákvörðun
Vissulega er tímabært að endurskoða Samkeppnislögin. Setja verður fjármálafyrirtækjum nýjar leikreglur. Nýjar samskiptareglur milli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans verða að vera skýrar. Alla umgjörð varðandi bankastarfsemi og ekki síst krosseignatengsl verður að skoða rækilega. Það er bönkum og öðrum fjármálastofnunum nauðsyn á að fá hertari og markvissari leikreglur.
Varðandi samkeppni í dagvöruverslun hef ég litlar áhyggjur. Markaðurinn þ.e framboð og eftirspurn sér að mestu leiti um það. Samt sem áður verður alltaf einhver stærstur á markaðnum. Samkeppnislög koma ekkert í veg fyrir það. Við sjáum aldrei t.d þrjá til fjóra samkeppnisaðila með svipaða markaðshlutdeild. Sú sýn er óraunhæf. Lögin geta einungis sagt til um hvað telst vera markaðsráðandi hlutdeild. Einhver nær stærsta bitanum og nær yfirhöndinni. Þetta gamla markaðslögmál að ef þú græðir eina krónu í dag þá viltu græða tvær á morgun. Sá sem kemst yfir peninga að einhverju ráði missir sjónar á veruleikanum, því miður. Og þá er ekki verið að spyrja um siðferði. Svona hefur þetta verið öldum saman, peningarnir hafa svo mikið vald.
Fólk verður að gera greinamun á því sem er raunhæft eða fallegt og gott. Það fer ekki alltaf saman. Öll eðlileg verðmyndun er afskaplega erfið nú þegar verðbólga er um eða yfir 20%. Að reka fyrirtæki í dag er afskaplega erfitt og allt umhverfi í rekstri óviðunandi. Það skiptir mig afskaplega litlu máli hvar ég kaupi brauðið mitt eða hver bakaði það svo lengi sem ég fæ vöru sem ég er ánægður með á hagstæðu verði. Þannig held ég að sé með flesta, fólk hefur ekki efni á öðru.
Að lokum ætla ég að leifa mér að vitna í orð sem ég heyrði í sjónvarpsviðtali um daginn. Það var viðtal við konu sem ekki hefur alltaf séð til sólar. Hún sagði það er ekkert ástand svo vont að ekki hægt að komast út úr því.
Kalla á heildarendurskoðun á samkeppnisumhverfinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.12.2008 kl. 01:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Benedikt Bjarnason
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar