Afneitun Gylfa

Það er afskaplega dapurlegt að lesa hugmyndarfræði ýmissa ráðherra ríkisstjórnarinnar. þeir virðast ekki gera sér neina grein fyrir því hver staðan sé í raun og veru, ekki síst Gylfi Magnússon.

Það kann vel að vera að það sé hægt að lengja svo í lánum og greiðslujafna þannig hjá fólki að það geti staðið í skilum með afborganir af sínum lánum. En er Gylfa og hans líkum alveg ómögulegt að skilja að í mörgum tilfellum er fólk að borga af lánum sem eru orðin hærri en verðmæti eignarinnar sem það er að borga af.

Sá sem á húsnæði með ákvílandi láni greiðir af því með þá vissu að hann sé að eignast meira í húsnæðinu á ári hverju en ekki minna, eins og nú er. Er undarlegt að fólk sem aldrei sér fram á að eignast neitt í sínu húsnæði þrátt fyrir að geta greitt af lánunum hugsi sig tvisvar um.

Svo er annað sem Gylfi áttar sig ekki á er að í sumum tilfellum getur verið dýrara að greiða af lánum en að leigja. Hugsum okkur fólk sem er að greiða kr.250.000- af láni á mánuði og ræður við það. Þá eru eftir fasteignagjöld, tryggingar viðhaldskostnaður og fleira.

Hvað er þessi fjölskylda að að „græða“ mikið á mánuði með því að hætta að greiða af lánunum og fara út á leigumarkaðinn, með langtímaleitu í huga.

Er nokkur hissa þó að að fólk sé að hugsa aðra möguleika. En ekki er hægt að ímynda sér að Gylfi eða aðrir í ríkisstjórninni skilji það.


mbl.is Flestir geta staðið í skilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki næsta ríkisstjórn

Enn og aftur halda þau Steingrímur og Jóhanna og þeirra fylgifiskar áfram að tala saman. Aðal mál Samfylkingarinnar er að troða þjóðinni inn í ESB með góðu eða illu. Og inn skal hún fara, þó að það kosti heimilin og fyrirtækin gjaldþrot.

Ég vil minna á að þessi ríkisstjórn var búin að vinna saman í um rúmlega tveggja mánaða skeið og þarna eru engir nýgræðingar á ferðinni. Þetta fólk er ekki ókunnugt hvert öðru og ætti að vita nokkuð um stefnu og áherslur hvors flokks fyrir sig.

Eftir að hafa fylgst með stjórnmálum til margra ára man ég ekki eftir því að ríkisstjórn hafi verið mynduð eftir langar stjórnarmyndunarviðræður. Yfirleitt hefur tekið stuttan tíma að mynda ríkisstjórn þeirra flokka sem ná saman.

Ég spái því að þessir flokkar nái ekki að mynda ríkisstjórn ef ekki næst að koma saman stjórnarsáttmála  innan tveggja til þriggja daga.

 


mbl.is Stjórnarsáttmáli í smíðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógæfuverk.

Manni bregður við að heyra svona fréttir. Spurningar vakna. Hvað er að gerast í okkar þjóðfélagi? Hvað fær þessar ungu stúlkur til að gera slíkt?

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem unglingar ráðast á aðra unglinga með fólskulegum hætti. þannig fréttir hafa okkur borist undanfarna mánuði. Þeir sem þetta gera fá einhversstaðar hugmynd eða fyrirmynd annarstaðar frá. Annað er útilokað. Hvaðan koma þá fyrirmyndirnar?

Mjög margir tölvuleikir sem unglingar spila byggjast á ofbeldi, valdabaráttu, að þvinga einhvern til samstarfs eða samvinnu með hótunum og ofbeldi. Það sama á við um kvikmyndir í sjónvarpi og bíóhúsunum. Fréttir eða fréttatengt efni snýst að mjög miklu leyti um þetta, þó svo að unglingar horfi kannski ekki mikið á þannig efni. Fyrirmyndirnar eru allstaðar. Áreitið gríðarlegt.

Vissulega má halda því fram með réttu að unglingar (sem og fleiri) eigi að gera sér grein fyrir sýndarveruleika og raunveruleika. Sem betur fer gera flestir greinarmun þarna á milli. En einstaklingarnir eru misjafnir og sumir eiga erfiðara með að gera greinarmun á réttu og röngu. Lifa að einhverju leyti í sýndarveruleikanum. Þarna er eitthvað að og þarna verður að veita hjálp.

Ekki ætla ég á nokkurn hátt að verja gjörðir þessara stúlkna. Þarna var hreint út sagt framið grimmdarverk. En umhverfið sem við lifum í er skapað af okkur fullorna fólkinu. Fyrirmyndin er okkar.

Vonandi farnast þessu máli sem best í samvinnu við barnayfirvöld og aðra sem að því koma. Stúlkunni sem fyrir þessu varð óska ég alls hins besta, þó svo að búast megi við að sálarsárin verði sein að gróa.

  


mbl.is Formleg kæra lögð fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem tönn á festir.

Hún hefur ekki ætlað sér að deyja ráðalaus þessi bandaríska kona. Það hefur nú séð á manngreyinu. Greinilega kjarnakona.

Svo þegar lögreglan hafði borið kennsl á manninn þá auðvitað þekkti hún hann um leið. En hafið þið velt fyrir ykkur þessu orði „kennsl?“

Nú þegar sumarið nálgast þarf gjarnan að fúaverja tréverk. Þá er farið út í byggingarvöruverslun og keypt fúavarnarefni og það borið á viðinn. Það væri vissulega gaman að fara inn í byggingarvöruverslun og biðja um 1 lítir af „kennsli.“ Því þannig stendur á ég var einmitt að hitta mann sem ég þekkti ekki neitt,  og ef ég gæti borið á hann „kennsl“ þá myndi ég þegar í stað þekkja hann. Ekki amalegt það.

Skyldi lögreglan eiga mikið af „kennsli?“ Alltaf eru þeir að bera þetta á einhvern eða eitthvað.


mbl.is Beit þjóf til að ná DNA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirboð

Ekki kemur mér neitt í þessari frétt á óvart. Raunar held ég að enginn græði á þessum undirboðum.

Mér finnst það dálítið útbreiddur misskilningur að það sé um að gera að fá tilboð í öll verk smá og stórt. Þegar menn eru farnir að bjóða í verkið langt niðurfyrir  raunverð kemur það einhversstaðar niður. Það kann að vera að það komi niður á launaliðnum að einhverju leyti en mest held að það komi niður á verkgæðunum. Mörg þessara verka eru ekki úttektarskyld og reynt er að fara fram hjá því eins og mögulegt er og freistingin er alltaf að komast eins ódýrt frá verki og hægt er. Þá er ég hræddur um að það komi mest niður á gæðum og frágangsvinnu.

Ég vil vara fólk við sem stendur í framkvæmdum að taka ekki tilboðum sem eru komin langt niður fyrir eðlilegt verð. Ef svo er þá er eitthvað að. Í mjög mörgum tilfellum getur verið best að láta vinna verk í tímavinnu. Þá er vertakinn ekki undir neinni pressu og hægt að taka á vandamálum sem upp geta komið eins og oft vill verða þegar um breytingar eða viðhaldsvinnu er að ræða og þau mál leyst í samráði við verkkaupa. Ekkert er eðlilegra en að verkkaupi fái kostnaðaráætlun miðað við tilteknar forsendur, sem svo oft breytast ef verkið reynist stærra.

Þegar dregur úr nýbyggingarframkvæmdum er langbesti tíminn fyrir einstaklinga að fara í viðhaldsvinnu og breytingar. Nú er besti tíminn fyrir einstaklinginn, annars lendir hann alltaf í samkeppni við nýbyggingargeirann. Raunar á ég ekki til neitt einasta orð yfir seinaganginn í fólki. Til hvers í ósköpunum er verið að bíða? Og eftir hverju er verið að bíða?   


mbl.is Mikið um undirboð á byggingamarkaðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reiðarslag.

Jæja, þá vitum við það. Ekkert er nú leyfilegt lengur. En það má velta þessari „frétt“ fyrir sér á margan hátt.

Það er talað um hjólreiðarstíga t.d. svo og „reiðleiðir.“ Hjólreiðarstígar,  stundum nefndir hjólastígar eru ætlaðir hjólreiðarfólki. Reiðleiðir, til hvers eru þær? Þau hafa örugglega verið á einhverskonar reiðleið.

Þingmenn og frambjóðendur til Alþingis eru nú þessar vikurnar á yfirreið um landið til að afla atkvæða. Voru þau á yfirreið?

Þegar ferðast erum landið er oft talað um að fara framhjá tilteknum stöðum. Var hér um að ræða „framhjáreið?“

Um daginn var ég að lesa pistil um „kvennareið.“  Ég hef ekki flett upp á þessu orði í orðabók til að finna útskýringar á því. En var þetta eitthvað skylt því?

Þegar íslenska átti orðið bíll á sínum tíma var talað um „sjálfrennireið.“ Gæti átt vel við.

Að lokum þegar lögreglan stöðvaði „ökumanninn“ (eða var hann eitthvað annað) hefur það örugglega verið „reiðarslag“ fyrir parið og þau orðið „fjúkandi reið.“

En þetta sýnir svo ekki verður um villst að karlmaður getur gert tvennt í einu.


mbl.is Stunduðu kynlíf á ofsahraða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta stjórnarskrármál.

Það er búið að vera dálítið broslegt að fylgjast með umræðum um þetta blessað stjórnarskrármál. Ýmsir þeir sem talað hafa undanfarið og ekki síst þeir sem hafa skrifað á bloggsíðum láta eins og illa upplýstir unglingar. Skoðum það aðeins nánar.

Stjórnarskrármálið er á margan hátt mjög þarft mál og ekkert nema gott um það að segja. En það er tóm vitleysa að vera að ræða það núna. Fyrir því eru gildar ástæður.

Eftir nokkrar vikur verður gengið til kosninga og öll umræða á Alþing litast af því meðvitað og ómeðvitað. Þingmenn eru að ræða þetta frumvarp langt fram á nótt aftur og aftur en eru jafnframt með hugann við komandi kosningar og að afla sjálfum sér og sínum flokki fylgis. Stór hluti þingmanna er að hætta á þingi og kemur aldrei til með að þurfa að svara einu né neinu varðandi þetta mál hvernig sem fer. Við svona aðstæður er hreinn kjánaskapur að ætla að afgreiða þetta frumvarp nú á þessu þingi. Það er allt of vandmeðfarið til að ryðja því í gegn nú rétt fyrir kosningar.

Önnur ástæða fyrir því að það ber að taka þetta mál af dagskrá ekki seinna en strax er sú, að ríkisstjórnin ætti að snúa sér að vandamálum líðandi stundar því þar er af nógu að taka. Hún var mynduð til þess að taka á bráðasta vandanum og ætti að snúa sér frekar að því.Því næst gæti nýtt þing tekið málið upp og rætt það við eðlilegri aðstæður og gefið sér betri tíma, því frumvarpið þarf þess. 

Ef fram heldur sem horfir geri ég ráð fyrir að aftur verði kosið eftir tvö ár og þá getum við verið komin með mun betri lagasmíð.

Skoðanakannanir undanfarna vikna benda til þess að VG og Samfylkingin nái hreinum meirihluta á Alþingi að loknum kosningum. Báðir þessir flokkar hafa lýst vilja sínum til að starfa áfram saman fái þeir til þess umboð. VG hafa stóraukið fylgi sitt í skoðanakönnunum frá því kosið var fyrir tveimur árum. Hér er um óánægjufylgi að ræða verði það niðurstaða kosninganna. Það breytir engu hvað flokkurinn eða félagsskapurinn heitir - óánægjufylgi eða skyndivinsældir eru engum til framdráttar. Það hefur sýnt sig að svona skyndihrifning er fljót að koma og fljót að fara þegar verulega reynir á. Þegar engin innistæða er fyrir hendi er af litlu að taka.

Vissulega er það lítill vandi fyrir tvo flokka að starfa sama í rúma tvo mánuði fyrir kosningar. Það er þeim algerlega lífsnauðsynlegt að standa saman og sýnast samstíga. Slíkt leikrit geta flestir leikið. Veruleikinn er öllu naprari.

Vinstri Grænir voru að halda upp á tíu ára afmæli sem flokkur nú fyrir skemmstu. Á þessum áratug hafa þeir aldrei verið í stjórn en náð þeim árangri að þrasa ávallt á móti öllu, ekki síst málflutningi Samfylkingarinnar. Nú á allt í einu að vera allt í himna lagi. Trúi því hver sem vill. Ég sé ekki svona samkomulag endast.

Þegar ég kýs nú í lok apríl þá er það stefna flokksins til margra ára sem ræður. Kosningarhjal eða fallegt bros vikurnar á undan hefur engin áhrif á mig. Þó sumir skipti um skoðun eftir því hvernig vindurinn blæs. Slíkt gef ég ekki mikið fyrir. En komist Steingrímur Sigfússon í næstu ríkisstjórn þá verður kosið næst vorið 2011. Honum treysti ég ekki.


mbl.is Vilja vísa stjórnarskrármáli frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessar elskur.

Allt geta þær nú þessar elskur. Ég á alveg nóg með að gera einn hlut í einu og tekst nú ekki alltaf vel til. Enda bara karlmaður.

Svo er löggan að skipta sér af dugnaði konunnar með tómum aðfinnslum. Ekkert má nú lengur.

Var hún kannski á svolítið gráu svæði?


mbl.is Ók bíl, gaf barni brjóst og talaði í síma á meðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flest dettur mönnum í hug.

Ekki skal mig undra að menn hafi orðið hissa á að sjá mann brjótast inn í fangelsið. Það hlýtur að vera afar sjaldgæft.

Voru ekki afskaplega hæg heimatökin að opna fyrir manninum hliðið og veita honum húsaskjól. Er ekki bannað að neyta mönnum í neyð um gistingu?

Nú var Davíð vísað burt úr bankanum „sínum.“ Má kannski búast við að hann reyni að komast þangað aftur með einhverjum hætti? Nei, ég bara spyr.  


mbl.is Innbrotstilraun á Litla-Hrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir hætti að tjá sig.

Kastljósviðtal Sigmars við Davíð Oddson var forvitnilegt. Þar segir hann að hann hafi margsinnis varað ríkisstjórnina við að illa gæti farið fyrir bönkunum og þar með íslensku efnahagslífi. Ríkisstjórnin hafi ekki brugðist neitt við, og þar að síður bankarnir. Einnig hélt Össur Skarphéðinsson því fram að hann myndi ekki eftir því að Davíð hafi varað við neinu sem bent gæti til þess að bankarnir stæðu höllum fæti.

Ég er ekki í neinni aðstöðu til að meta það hver segir satt og rétt frá, enda á það vonandi eftir að koma í ljós þó síðar verði. 

En að mér læðist samt sá grunur að ýmsar upplýsingar sem Davíð hafi komið til skila til Geirs Haarde hafi verið verulega óþægilegar fyrir ríkisstjórnina, og af þeim sökum ekki farið lengra. Þar sé nú komin skýringin á því af hverju Össur hafi ekki vitað af þessu. Því það er verulega freistandi að stinga óþægilegum upplýsingum (staðreyndum) undir stólinn og vona að allt fari vel.

Þjóðin var jú á fylliríi, og það getur vissulega verið gaman á meðan á því stendur. En timburmennirnir koma alltaf. Nú er ölkrúsin tóm og timburmennirnir vinna sitt verk ötullega.

Ekki minnist ég þess að neitt hafi staðist sem Geir Haarde hafi sagt á undanförnum árum. Mikið af því hafi verið bull og vitleysa.

Nú styttist í að Geir hætti á þingi og sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Hans tími er liðinn. Því dregur maðurinn sig ekki í hlé og lætur lítið fyrir sér fara? Eftir fáar vikur verður kosinn nýr formaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Geir hefur sagt nóg og ætti frekar að láta öðrum um að svara fyrir flokkinn.


mbl.is Vill upplýsingar um fyrirgreiðslu til einkahlutafélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Benedikt Bjarnason

Höfundur

Benedikt Bjarnason
Benedikt Bjarnason
Ég er áhugamaður um þjóðfélagsmál og mannlífið yfirleitt. Fyrrverandi sveitavargur á miðjum aldri.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband