1.2.2009 | 18:09
Óskaríkisstjórn?
Nú hefur ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna tekið við með stuðningi Framsóknar. Ekki veit ég hvað á að segja um þessa ríkisstjórn. Ég hef ekki hoppað neitt af kæti. Það er kannski ástæða til að fagna en ég ætla að geyma það þangað til ég sé einhvern árangur. Sannur íþróttamaður fagnar ekki sigri fyrr en hann hefur sigrað.
Auðvitað hljóma fyrirheitin fallega og trúlega skortir ekki viljann til að framkvæma þau. Þessir flokkar hafa aldrei verið neitt sérstaklega samstíga en vonandi tekst þeim að halda dampi fram að kosningum. Það góða við þessa ríkisstjórn er að í henni eru tveir ráðherrar utan þings.
Einhvernvegin hef ég það á tilfinningunni að erfiðlega muni ganga að framkvæma öll fyrirheitin. Mér sýnist að hugmyndin sé að skipta tíuþúsund krónum milli fimmtán einstaklinga og hver eigi að fá þúsundkall í sinn hlut. Þetta gengur ekki upp samkvæmt minni stærðfræðikunnáttu, en það er kannski ekkert að marka.
Þessi ríkisstjórn hefur úr svo litlu fjármagni að spila. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur kverkatak á ríkisfjármálunum og landið hefur ekkert lánstraust.
Við skulum ekki gleyma því að nú styttist í kosningar. Þá verða allir flokkar bæði í stjórn og í stjórnarandstöðu að sýna sig í sparifötunum, til að afla atkvæða. Stór hluti af þessum fyrirheitum tengist þessari staðreynd. En ég óska þessari ríkisstjórn alls hins besta þó gleðitárin vanti.
Slá skjaldborg um heimilin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.1.2009 | 12:29
Óskastjórn eða hvað?
Svolítið hefur VG og Samfylkingu gengið erfiðlega að koma saman ríkisstjórn. Mér kemur það ekki svo á óvart. Þessir flokkar hafa ekki verið mjög samstíga og oft deilt á Alþingi og sjaldan verið sammála. Þannig að einhverjir verða að bugta sig.
Vitanlega setur Framsóknarflokkurinn skilyrði annað væri óeðlilegt. Hvaða bull er það að láta sér detta í hug að einhver flokkur, sama hvað hann heitir, skrifi upp á hvað sem er bara til þess að koma á ríkisstjórn. Það telst nú einu sinni mannlegt eðli að sá sem kemst í þá aðstöðu að hafa áhrif á framvindu mála hlýtur að nýta sér það. Ég get ekki séð það að Framsókn hafi sett tilvonandi ríkisstjórn nein þau skilyrði sem ekki séu aðgengileg eða umsemjanleg.
Það er dálítið broslegt að sjá hér á blogginu þá hugsýki að Finnur Ingólfsson standi á bak við aðgerðir Framsóknar. Ekkert veit ég um það, annað en að ég hef hvergi séð það að Finnur hafi gefið út þá yfirlýsingu eða Sigmundur hafi gefið það í skyn. Ég er nú þannig gerður að ef mér er borinn matur, þá geri ég ekki fyrirfram ráð fyrir að hann sé óætur áður en ég hef smakkað hann. Reynslan hefur kennt mér að það er betra að hafa hlutina í hendi áður en ég fullyrði eitthvað.
Ég held að fólk ætti að temja sér það að fagna því þegar nýtt fólk fram í stjórnmálum. Eftir fáar vikur verður kosin ný forusta fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ekki dettur mér í hug annað en að fagna því að þar komi nýtt fólk til forustu.
Stjórnmálin eru eins og hver önnur vinna. Þeir sem eldri eru verða að geta miðlað af reynslu en jafnframt að veita þeim yngri tækifæri. Ef við ætlum ekki að byggja á ungu fólki sem nú er að koma inn í stjórnmálin, á hverju ætlum við þá að byggja? Svo er það annað mál hvað hver og einn staldrar lengi við. Það er auðvitað misjafnt eins og í öllu öðru.
Stjórn mynduð í dag eða á morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2009 | 12:57
Gott að geta breyst í geit.
Afskaplega er þetta nú heppileg aðferð til að komast undan lagana vörðum. Gaman hefði nú verið að sjá yfirheyrslur yfir geitinni, hún hlýtur að hafa samþykkt allt. Því þögn er sama og samþykki.
En mér datt í hug að þetta hefði nú komið sér vel fyrir mig í haust þegar ég var stöðvaður fyrir of hraðan akstur. Það hefði nú komið svipur á lögregluþjóninn ef ég hefði getað brugðið mér í geitarlíki, bara rétt si-svona. Og auðvitað losnað við að greiða þessar rúmar 20.000 kr í ríkissjóð. Því það var geitin sem var sek, ekki ég o-nei o-nei.
Og þó; veitti fátækum ríkissjóði nokkuð af þessum krónum? Ég vona bara að þær hafi nýst vel, ekki veitir af.
Þjófur breytist í geit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2009 | 13:50
Óska Geir góðs bata.
Ég verð að viðurkenna, að hlusta á yfirlýsingu Forsætisráðherrans setti mig hljóðan. Margt hefur verið sagt og gert í hita þess ástands sem við búum við, er mörgum ekki sæmandi. Væntanlega hefur Geir gert sér grein fyrir því að eitthvað væri að í alllangan tíma, þó svo að hann væri ekki að tala opinberlega um það. Og ekki vitað hversu alvarlegt það er.
Á undanförnum vikum hef ég ekki verið sammála aðgerðum eða aðgerðarleysi Ríkisstjórnarinnar. En ég verð að viðurkenna að ég hef stutt Geir að sumu leyti. Það skítkast og allur sá orðaflaumur sem dunið hefur á Geir er þeim sem það stunda ekki til framdráttar. Ég geri greinarmun á persónunni Geir Haarde og stjórnmálamanninum Geir Haarde. Það á enginn að þurfa að líða þá meðferð sem hann hefur mátt þola. Að vera grýttur á almannafæri t.d. Hvernig hefur hann svo brugðist við? Mér hefur fundist aðdáunarvert hvernig hann gefur haldið ró sinni og komið fram yfirvegaður. Vegna þessa hef ég stutt hann.
Málefnaleg rökföst umræða er alltaf það besta. Og nokkuð er ég viss um að til er fólk sem á eftir að sjá eftir ýmsu þegar frá líður. Það er eðlilegt og ber að virða það. Öllum getur orðið á.
Við megum stundum aðeins hugsa innávið og gera okkur grein fyrir því að: aðgát skal höfð í nærveru sálar. Óska honum og hans fólki alls hins besta.
Geir: Kosið í maí | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.1.2009 | 12:52
Lögreglan fær minn stuðning.
Í fréttinni er haft eftir Röddum fólksins eftirfarandi segjast harma að saklausir sjónarvottar hafi orðið fyrir barðinu á tilviljanakenndri valdbeitingu lögreglunnar. Öllu má nú nafn gefa. Byrjum á byrjuninni.
Þeir sem taka þátt í mótmælum hafa langflestir ætlað sér að gera það á friðsamlegan hátt. Vera þátttakendur í friðsömum mótmælum sem er hið besta mál. Skipulögð mótmæli aftur og aftur hafa einhvern tilgang. Fólk kemur ekki saman til að mótmæla, mótmælanna vegna nema í undantekningartilfellum. Mótmæli eru í eðli sínu þannig að alltaf má búast við að fáir einstaklingar taki sig út úr og geri eitthvað sem ekki er sæmandi. Hörður Torfason hefur komið vel fyrir í viðtölum í sjónvarpi, verið málefnalegur og yfirvegaður og hvatt til friðsamra mótmæla.
Ekki veit ég hver hvatti til þess að fólk kæmi saman fyrir framan Alþingishúsið með potta og pönnur og reyndi að trufla sem mest þingsetninguna. En ég veit að Hörður Torfason varði þessa aðgerð.
Þetta er trúlega ein sú vitlausasta aðgerð sem fólk gat gripið til. Þingið hafði ekki komið saman frá því fyrir jól. Það er einmitt það sem þjóðin þarf á að halda, er að þingið fái starfsfrið og komi einhverju frá sér. Ekki veitir af.
Veit vel hver tilgangurinn var með þessari uppákomu. Að láta sér detta í hug að stjórnin segði af sér við svona aðstæður er fáránleg hugsun. Annar formaður stjórnarflokksins er erlendis vegna veikinda og afskaplega líklegt að stórar ákvarðanir verði ekki teknar fyrr en hann kemur til starfa.
Hvernig bregðast menn við mótmælum eða áreiti. Sumir missa stjórn á sér og segja eða gera eitthvað sem þeir annars hefðu ekki gert. Einhverjir bresta, en enn aðrir þjappa sér saman og harðna við andstöðuna. Getur verið, að þegar frá líður snúist þessi mótmæli upp í andhverfu sína og komi þeim best sem þau eiga að beinast gegn? Ég veit það ekki.
Ég skil Geir vel að vilja ekki slíta þessu stjórnarsamstarfi núna. Það styttist í landsfund Sjálfstæðisflokksins og það er eðlilegt að hann vilji ekki taka neinar stórar ákvarðanir fyrir fund. Það er eðlilegt að bíða niðurstöðu fundarins og sjá hver framvindan verður þar. Ég á von á að þar séu raddir sem hvetji hann til að boða til kosninga, því það eru ekki allir sjálfstæðismenn samstíga.
Að berja potta og pönnur til áhersluauka ásamt hrópum og köllum er góð uppskrift að múgaæsingu. Við hverju gat fólk búist? Þátttakan ein og sér kallar á ákveðna áhættu.
Lögreglan var að gera skyldu sína. Henni ber að verja eigur fólks og passa upp á almannaheill. Verja þinghúsið og þingmenn og almenning gegn áföllum. Það var verið að kasta eggjum og tómmötum í lögregluna. Til hvers?
Þá kem ég aftur að áreitinu. Lögreglan er bara fólk eins og ég og þú. Hún er ekki einhver dauður sálarlaus hlutur. Hún ber enga ábyrgð á því hvaða ríkisstjórn er í landinu. Þó svo að lögreglunni sé uppálagt að gæta stillingar má öllu ofgera. Endalaust síendurtekið áreiti, eggjakast, svívirðingar, hrindingar og endurteknar stympingar. Hvað er hægt að ganga langt án þess að eitthvað bresti? Nú í hádegisfréttunum var verið að segja frá því að verið væri að kasta grjóti í lögregluna. Og lögreglumenn hafi særst.
Lögreglan eru manneskjur með sínar tilfinningar og getur gert sín mistök eins og aðrir. En ég efast að um hafi verið að ræða tilviljunarkennda valdbeitingu. Það verður að vera skoðun þess sem sendi inn fréttina. Hafi einhver verið beittur ofbeldi af hendi lögreglunnar hlýtur sá hinn sami að leita rétta síns. Vissulega má segja að lögreglan sé ekki öfundsverð og alveg ólíðandi að hún sé orðin fórnarlamb ástands sem hún á engan þátt í.
Hlutverk lögreglu ekki öfundsvert | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2009 | 21:37
Kosningar, hvað svo?
Hef hugsað mikið um það undanfarið hvað kosningar á þessu ári hefðu í för með sér. Krafan um stjórnarslit og kosningar til Alþingis er hávær og allt í lagi að gera sér í hugalund hverju það myndi breyta eða hvort.
Núverandi stjórnarflokkar hafa um tvo þriðju kjörinna þingmanna á bak við sig. Það er afar ólíklegt að þeir haldi ekki þeim meirihluta að loknum kosningum. Til þess þarf mikið að breytast. Skoðum það nánar.
Sjálfstæðismenn halda til landsfundar á næstu dögum. Í skoðanakönnunum hafa þeir verið að tapa fylgi, og eru ekki þeir vinsælustu núna. Undanfarið hefur verið starfandi á vegum flokksins nefnd sem meðal annars á að meta kosti og galla inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Það er flokknum alger nauðsyn að komast heill og óskiptur frá landsfundinum. Ég tel útilokað annað en að hann komi með einhverja þá yfirlýsingu eða ályktun frá fundinum sem verulega mikil samstæða næst um. Að koma klofin frá þessum fundi er ekki það sem flokkurinn vill. Sameiningin er þeim nauðsyn. Geir gerir flokknum erfiðara fyrir, en væntanlega nær hann góðri kosningu. Búast má bið að Sjálfstæðisflokkurinn tapi fylgi en en mun minna en kannanir hafa sýnt.
Samfylkingin er í svolítið annarri stöðu. Hún var ekki í stjórn þegar þær ákvarðanir voru teknar sem nú eru að reynast okkur erfiðar. Hins vegar ber Samfylkingin fulla ábyrgð á stjórnarsamstarfinu ásamt Sjálfstæðisflokknum og líklegt að það verði flokknum til trafala. Ingibjörg er snjall stjórnandi og á gott með að laða til sín fólk. Eindregin stuðningur við Evrópusambandsaðild færir flokknum fleiri atkvæði frekar en færri.
Framsóknarflokkurinn teflir fram nýrri forustu, ungt fólk án fortíðardraugs Framsóknar. Ekki er ólíklegt að hann bæti við sig fylgi, ekki síst í Reykjavík. Það sé fólk sem vill breytingar, og er tilbúið að kjósa nýtt fólk á þing.
Vinstri Grænir hafa innanborðs tvo sem ekki hafa verið taldir neinir framfaramenn. Talað á móti öllum tillögum og málum sem flutt hafa verið á þinginu undanfarin ár. Þeir félagar, Steingrímur og Ögmundur eru menn fortíðarinnar og dragbítar á flokkinn. Aftur á móti nýtur flokkurinn þess að hafa aldrei verið í stjórn, og gæti fengið fylgi út á það. Fylgi frá óánægðum kjósendum. Halda trúlega sínu en ekki mikið meira en það.
Frjálslindir hafa ekki staðið saman sem ein heild. Þingmenn flokksins njóta aftur á móti persónufylgis í sínum kjördæmum. Mega teljast heppnir ef þeir halda sínu en tapa líklega fylgi.
Önnur framboð geta auðvitað komið fram, en það er dýrt að fara af stað með framboð og ekki miklir peningar í umferð. En það kemur í ljós hvað verður.
Áhrifum landsbyggðarinnar megum við ekki gleyma. Hver landsbyggðarþingmaður hefur færri atkvæði á bak við sig en þingmenn Reykjavíkur. Til þess að gera fá atkvæði greidd landsbyggðarþingmanni geta geta skekkt heildarmyndina.
Það er nú svo að frambjóðendur út á landi njóta persónufylgis meira en á höfuðborgarsvæðinu. Fólk greiðir gjarnan sínum frambjóðanda atkvæði sitt, og er íhaldssamara í skoðunum. Þó svo að áhrifin séu minni eftir að kjördæmin stækkuðu. Svo má ekki gleyma því að aðstæður eru allt aðrar en á Reykjavíkursvæðinu.
Húsnæðisverð náði aldrei þeim hæðum sem það gerði á höfuðborgarsvæðinu, og munaði þar miklu. Bankarnir voru tregari að lána, og fólk út á landi gat ekki skuldsett sig eins og víða annarstaðar. Uppbyggingin hægari og öfgafull uppsveifla ekki til staðar. Fyrir nokkru var talað við konu austur á Vopnafirði. Hún kannaðist ekki mikið við þessa kreppu, en sagði eitthvað á þá leið, að það sem ekki færi upp kæmi ekki niður. Þannig var þetta víða.
Ég hef sterka tilfinningu fyrir því að reiði og gremja fólks gagnvart stjórnvöldum og ástandinu almennt, sé minni í hinum dreifðu byggðum. Þaðan sem atkvæðin í kosningum skipta svo miklu máli.
Ekki veit ég hvort kosið verður. En ég tel rétt að kjósa, það er eðlileg réttlætisleið í því ástandi sem við búum við núna. En ekki reikna ég með neinni byltingu, og á alveg eins von á að kosningar breyti ekki miklu. Þær breyta þó því að þá fær fólkið það sem það vill. Vonandi linnir þá mótmælum, burt séð frá því hverjir mynda meirihluta. Annars erum við í sömu sporum. það held ég að fæstir vilji.
19.1.2009 | 17:01
Ríkar konur, betra kynlíf.
Þetta hlýtur að vera gagnkvæmt. Annars er það brot á jafnræðisreglunni, og hvað með jafnréttið?
Út frá þessu getur maður farið að spá og spekúlera. Nú er bara að skoða álagningarskrána frá skattinum þegar hún kemur út um mánaðarmótin júlí ágúst
Jæja hvernig skyldi þessi standa sig?
Ekki allar fréttir slæmar.
Ríkir menn betri í rúminu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.1.2009 | 20:25
Bara smáaurar
Hverflans er þetta? Hvað geta menn lagst lágt? Að vera að kvarta yfir litlum 25 milljörðum Ég á ekki til orð. Ef þetta væri einhver upphæð sem munaði um þá horfir málið öðruvísi við.
En ef einhver finnur þessa milljarða má hann gjarnan vera vinur minn alveg í eitt ár og kannski meira. Ósköp yrði maður fegin að eignaðist, þó ekki væri meira en 1% af upphæðinni.
25 milljarða króna greiðsla týnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.1.2009 | 00:12
Vitlausasta framkvæmd sem farið hefur verið í.
Bygging tónlistarhússins er tómt klúður frá upphafi. Það átti aldrei að láta sér detta í hug að byggja þennan minnisvarða. Til hvers, ef ég má spyrja?
Mörg undanfarin ár hafa verið haldnir tónleikar af öllum möguleikum toga. Stórir sinfóníutónleikar með kórum, einsöngvurum og öllu því sem til þarf við góða tónleika. Alltaf til hús, engin vandamál. Getur einhver nefnt dæmi þess að hætt hafi verið við tónleika vegna þess að ekki var til tónlistarhús sem ekki hentaði viðkomandi? Þá á ég við einhver fagleg rök sem skiptu máli við flutning á tónlistarinnar.
Því miður verður þetta ríkistónlistarhús bara steinkumbaldi um ókomin ár. Ágætur minnisvarði um aulabjartsýni hægrisinnarða stjórnmálamanna. Það er í góðu lagi að byggja tónlistarhús þegar nóg er til af peningum. En við gerum það ekki þegar þjóðarskútan er að sigla upp í brimgarðinn. Við sáum jú glitta í hann þegar byrjað var á húsinu.
Reynt að leysa mál Tónlistarhúss | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.1.2009 | 23:43
Gott hjá Bjarna.
Kastljósviðtal Sigmars við Bjarna fyrrum bankastjóra Glitnis var mjög frambærilegt. Það var ýtarlegt og víða komið við.
Bjarni komst mjög vel frá þessu viðtali. Hann viðurkenndi ýmislegt sem betur hefði mátt fara og annað sem voru hrein og klár mistök. Hann er sá eini sem fram hefur komið hingað til sem viðurkennir að sér hafi orðið á mistök. Hafa stjórnendur hinna stóru bankana gert það, eða framkvæmdarstjóri Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankastjóri eða ráðherrar? Nei, það hefur verið minna um það. Þetta finnst mér virðingarvert og honum til framdráttar.
Þau ofurlaun og kaupréttarsamningar og hverskonar bónusar sem Bjarni fékk og aðrir í sambærilegri stöðu fengu, er vissulega gagnrýnivert.
Þegar maður ræður sig til starfa á að gera við hann ráðningarsamning. Vænta má að Bjarni hafi gert slíkan samning svo og kaupréttarsamning og síðast en ekki síst starfslokasamning. Allt eru þetta samningar. Og til að gera samninga þarf tvo til, í það minnsta. Það hlýtur að hafa verið stjórn bankans sem samþykkti þessa samninga. Hvað með þátt Þorsteins Márs stjórnarformanns?
Enginn gat séð fyrir hversu mikið hlutabréfin í Glitni hækkuðu. Bjarni segir í viðtalinu að hann hafi farið fram á ákveðið fyrir bréfin þegar hann seldi. Sú upphæð var samþykkt umsvifalaust. Þó svo að hann væri að selja á yfirverði.
Bankarnir þrír; Glitnir, Landsbankinn og Kaupþing voru allir að keppa innbyrðis. Allir fóru þeir fram úr sjálfum sér- öfgarnar og fáránleikinn allsráðandi. Umhverfið bauð líka upp á svona vinnubrögð.
Forstjóri Fjármálaeftirlitsins viðurkenndi í viðtali nú fyrir stuttu, að lög og reglur varðandi fjármálastarfsemi væru ekki nógu afgerandi og skýrar. Einnig að verkslagsreglur milli Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins væru gallaðar.
Græðgin sem Bjarni viðurkenndi er hluti af okkar vanda í dag. Margt fór úrskeiðis. En hvar var eftirlitið?
Bjarni greiddi til baka 370 milljónir sem er ágætt. Honum bar engin skylda að greiða neitt en gerði það. Mega þá ekki aðrir gera slíkt hið sama? Mér þykir ekki síður vænt um að hann hafi komið fram og viðurkennt sín mistök í bankarekstrinum. Það mættu fleiri gera.
Endurgreiddi 370 milljónir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Benedikt Bjarnason
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar